Blog

Tillaga að nýju aðalskipulagi Grundarfjarðarbæjar 2018-2038

Fjölskyldu- og umhverfisvænt samfélag:

Tillaga að nýju aðalskipulagi fyrir sveitarfélagið liggur nú fyrir til kynningar á vinnslustigi

Í tillögunni er sett fram fjölþætt stefna sem miðar að því að Grundarfjörður verði stöndugur þjónustukjarni sem byggir einkum á sjávarútvegi og ferðaþjónustu, auk þess að vera menntasetur og með lifandi landbúnað.

Framtíðarsýnin er fjölskylduvænt samfélag þar sem hlúð er að íbúum, í umhverfi sem menntar og gleður, er gróðurríkt og vel skipulagt, friðsælt og snyrtilegt.

Sýnin byggir meðal annars á vinnu íbúa sem tóku þátt í skipulagsvinnunni, á íbúafundi og öðrum kynningar-/samráðsfundum fyrr í vinnuferlinu.

Aðalskipulagstillagan markar stefnu um nokkra meginmálaflokka m.t.t. landnotkunar, mannvirkjagerðar og umhverfismála, en málaflokkarnir eru:

  • Byggð og samfélag

  • Umhverfi og auðlindir

  • Atvinnulíf

  • Grunnkerfi

Undir hverjum málaflokki eru síðan nokkur viðfangsefni. Dæmi um þau eru íbúðarhúsnæði og lóðir, atvinnusvæði, frístundabyggð, landbúnaðarsvæði, auðlindanýting, minjavernd, útivistarsvæði, gatna-/vegakerfi, gönguleiðakerfi og veitukerfi.

Auk stefnu um þessi viðfangsefni eru þrjú svæði í þéttbýlinu; miðbær, hafnarsvæði og Framnes, tekin sérstaklega fyrir vegna mikilvægis þeirra, fjölbreyttrar starfsemi á þeim og skipulagsviðfangsefna sem þar er við að fást.

Sett eru fram markmið og leiðir að hverju markmiði, sem síðan er fylgt eftir með stefnu um landnotkun og skipulagsákvæði skilgreind.

Á fundi sínum þann 22. maí sl. samþykkti skipulagsnefnd tillöguna og lagði til við bæjarstjórn að hún færi í kynningu á vinnslustigi. Bæjarstjórn samþykkti tillögu nefndarinnar á fundi sínum 23. maí sl. og að setja hana í kynningu. Tilgangur kynningar er að gefa upplýsingar um efni tillögunnar og gefa íbúum og öðrum hagsmunaaðilum tækifæri á að koma að fullmótun tillögunnar nú á vinnslustigi.

Aðalskipulagstillagan, ásamt umhverfisskýrslu hennar, er því birt nú og er leitað eftir ábendingum í formi hugmynda, tillagna, athugasemda við eða spurninga um efni tillögunnar.

Kynningartími er til 10. september. Ráðgert er að halda opið hús eða kynningarfund um tillöguna síðari hluta ágústmánaðar og verður það auglýst þegar nær dregur. Að kynningartíma liðnum verður unnið úr ábendingum sem berast og gengið frá endanlegri tillögu eftir því sem ný umhverfis- og skipulagsnefnd og bæjarstjórn ákveður.

Í framhaldinu verður tillagan svo auglýst formlega með tilskildum 6 vikna athugasemdafresti áður en gengið verður frá henni til samþykktar.

Hér er slóð á:

Að auki er afmörkun landnotkunarákvæða sýnd í sérstakri vefsjá, til hægðarauka. Hægt er að smella með músinni á svæði eða tiltekinn reit og þá birtast þau skipulagsákvæði sem gilda sérstaklega um viðkomandi reit. Vefsjána nálgast hér.

Íbúar Grundarfjarðarbæjar og aðrir hagsmunaaðilar eru hvattir til að kynna sér tillöguna. Senda má ábendingar og athugasemdir, en þeim skal skila skriflega til skipulags- og umhverfisnefndar, b.t. skipulagsfulltrúa, Borgarbraut 16, 350 Grundarfirði - eða senda á netfangið grundarfjordur@grundarfjordur.is í síðasta lagi 10. september 2018.


Featured Posts
Posts are coming soon
Stay tuned...
Archive
Follow Me
  • Grey Facebook Icon
  • Grey Twitter Icon
  • Grey Instagram Icon
  • Grey Pinterest Icon